Erlent

Kveðst hafa brotið valda­ráns­til­raun Guaidó á bak aftur

Atli Ísleifsson skrifar
Nicolas Maduro hefur gegnt embætti forseta Venesúela frá árinu 2013.
Nicolas Maduro hefur gegnt embætti forseta Venesúela frá árinu 2013. epa
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, lýsti því yfir í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi, að tekist hafi að brjóta á bak aftur tilraun Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, til valdaráns. Um hundrað særðust í átökum sem brutust út í Venesúela í gær.

Í ávarpinu sagði Maduro að Guaidó hafi mistekist að fá herinn á sitt band gegn Maduro en Guaidó hefur haldið því fram að Maduro hafi misst stjórn á hernum og að nauðsynlegt sé að hann víki. Maduro sagði ennfremur að mótmælendur hafi gerst sekir um alvarlega glæpi og að þeir verði sóttir til saka.

Yfir fimmtíu þjóðarleiðtogar hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó og sagt hann réttmætan leiðtoga Venesúela. Maduro nýtur hins vegar enn stuðnings ríkja á borð við Kína og Rússland.

Guaidó hvatti stuðningsmenn sína til að halda áfram mótmælum í dag og krefjast þess að Maduro víki alveg, svo koma megi á friði í landinu.

Ófremdarástand ríkir nú í Venesúela þar sem íbúar glíma við óðaverðbólgu, matarskort og ítrekaðan rafmagnsskort.


Tengdar fréttir

Átök brutust út á milli stjórnar og andstöðunnar í Venesúela

Lögregla og þjóðvarðlið vörpuðu táragasi á stuðningsmenn stjórnarandstöðuleiðtogans og starfandi forsetans Juan Guaidó í höfuðborg Venesúela eftir að hann birti myndband af sér með hermönnum og hvatti fólk til þess að grípa til aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×