Beto O‘Rourke, einn þeirra fimmtán sem sækjast eftir tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember næsta árs, fór í dag í heimsókn til Mexíkó og hitti þar fyrir fjölskyldur sem freistað hafa þess að komast yfir til Bandaríkjanna en hefur verið snúið til baka. AP greinir frá.
O‘Rourke, sem tapaði fyrir Ted Cruz í öldungardeildarþingkosningunum í Texas í fyrra, hélt frá heimabæ sínum El Paso í Texas, yfir ána Rio Grande og til borgarinnar Ciudad Juarez.
O‘Rourke fundaði með flóttamönnum sem flúið hafa ástandið heima fyrir, í Mið-Ameríkuríkjunum Hondúras, El Salvador og Gvatemala. Hlýddi O‘Rourke þá á sögur fólksins sem lýsti óttanum sem það lifir við, óttanum við að vera send aftur til heimalandsins þar sem þeim beið gengjaofbeldi, eiturlyfjasmygl eða ofbeldi af hálfu fjölskyldumeðlima.
„Við vonum að með því að deila þessum sögum opnum við augu fólks fyrir því að ríkið þarf að breyta stefnumálum sínum,“ sagði O‘Rourke í beinni á Facebook síðu sinni eftir að hafa hitt hælisleitendurna.

