Handbolti

Janus heldur áfram að spila frábærlega og sjö íslensk mörk í dramatískum sigri Ribe-Esbjerg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Janus Daði í úrslitaleiknum gegn GOG á síðustu leiktíð.
Janus Daði í úrslitaleiknum gegn GOG á síðustu leiktíð. vísir/getty
Tvöföldu meistararnir í Álaborg byrjaði tímabilið af krafti. Þeir unnu Ofurbikarinn í Danmörku á dögunum og byrja deildina svo á níu marka sigri á Nordsjælland, 34-25.

Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en meistararnir sýndu styrk sinn í síðari hálfleik. Staðan var 18-17 í hálfleik en Nordsjælland skoraði einungis átta mörk í síðari hálfleik.

Janus Daði Smárason hefur byrjað leiktíðina af krafti. Hann skoraði fjögur mörk í kvöld og gaf þar að auki átta stoðsendingar. Hann dældi einnig út stoðsendingum í Ofurbikarnum á dögunum.

Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg vann góðan endurkomusigur gegn Lemvig-Thyboron á útivelli 26-23 eftir að hafa verið undir er þrjár mínútur voru til leiksloka.

Daníel Þór Ingason jafnaði metin fyrir Ribe-Esbjerg í 23-23 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir og þeir höfðu svo betur eftir dramatík, 26-23.

Rúnar Kárason skoraði fjögur mörk úr sex skotum og var með þrjár stoðsendingar og Daníel Þór Ingason skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum. Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×