Innlent

39 farþegar Icelandair komust ekki með frá Manchester

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bombardier Q400-vél Air Iceland Connect sést hér á Akureyrarflugvelli. Vélarnar eru nú notaðar í millilandaflugi Icelandair vegna kyrrsetningar MAX-vélanna.
Bombardier Q400-vél Air Iceland Connect sést hér á Akureyrarflugvelli. Vélarnar eru nú notaðar í millilandaflugi Icelandair vegna kyrrsetningar MAX-vélanna. vísir/frikki þór
39 farþegar Icelandair sem áttu bókað flug með félaginu frá Manchester í dag komust ekki með þegar flugið fór frá Bretlandi þar sem ekki var pláss fyrir þá í vélinni.

Í svari Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn Vísis kemur fram að upphaflega hafi Boeing 757 vél átt að fljúga frá Manchester í dag.

Vegna kyrrsetningar MAX-vélanna hefur Icelandair hins vegar þurft að gera ráðstafanir varðandi flugáætlun og flotann.

Eins og greint hefur verið frá felast þær ráðstafanir meðal annars falist í því að nota vélar af gerðinni Bombardier Dash-8 Q400 frá Air Iceland Connect fyrir styttri flug eins og Manchester, Dublin og Bergen.

Náðu ekki að gera ráðstafanir fyrir alla í tæka tíð

Markmiðið er að halda áætlun og þar með lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna á farþega Icelandair að því er segir í svari Ásdísar. Þar segir jafnframt um flugið frá Manchester í dag:

„Þetta tiltekna flug frá Manchester var því töluvert yfirbókað en við náðum því miður ekki við að gera ráðstafanir fyrir alla í tæka tíð og þykir okkur það mjög leitt.

Það voru 39 farþegar sem komust ekki með vélinni og höfum við boðið þeim gistingu og uppihald í Manchester á okkar kostnað sem og skaðabætur.

Þá stendur þeim til boða beint flug frá Manchester á morgun eða tengiflug í gegnum aðra áfangastaði okkar í dag.

Það hefur verið mikið álag á okkar fólki undanfarin misseri vegna kyrrsetningar MAX vélanna en almennt hefur gengið nokkuð vel að leysa málin í sumar.

Við erum að gera okkar besta við óvenjulegar aðstæður og þykir mjög leitt að hafa ekki náð að leysa þetta betur fyrir þetta tiltekna flug.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×