Hinn 22 ára gamli framherji, Malcom, er að öllum líkindum á leið frá Barcelona til rússneska félagsins Zenit frá Pétursborg.
Forseti rússneska félagsins, Alexander Medvedev, greinir frá þessu í samtali við rússneska fjölmiðla en þar segir hann að Javier Ribalta, tæknilegur ráðgjafi Zenit, sé á Spáni.
Þar eigi hann í viðræðum við Malcom og spænska risann en Barcelona keypti Malcom til félagsins frá Bordeaux árið 2018.
Atburðarásin var undarleg þar sem Malcom virtist vera á leið til Roma en Börsungar náðu að stela Brasilíumanninum af Roma.
Malcom er með samning við Barcelona til ársins 2023 en hann var keyptur á 45 milljónir evra til Barcelona og miklar væntingar voru bundnar við hann.
Hann skoraði bara eitt mark í þeim fimmtán leikjum sem hann tók þátt í spænsku úrvalsdeildinni og lagði upp tvö mörk. Hann lék 608 mínútur á síðustu leiktíð.

