Toyota bifreið, hvít og falleg stóð ein og yfirgefin upp úr hádeginu í dag við Ölfusá fyrir neðan Hótel Selfoss. Ástandið breyttist þó fljótt, slökkviliðsmenn mættu á svæðið og kveiktu í bílnum. Þeir leyfðu að loga vel í smástund en komu svo með sérstakt bílaeldvarnarteppi og kæfðu eldinn. Um sýnikennslu var að ræða fyrir þátttakendur á námskeiði Brunavarna Árnessýslu og Mannvirkjastofnunar um hættur þegar bílar brenna, ekki síst rafmagnsbílar eins og við sögðum frá í fréttum um helgina. Í þeirri frétt kom m.a. fram að slökkviliðsmenn standa frammi fyrir nýjum áskorunum þegar eldur kemur upp í bílum sem knúnir eru annarri orku en bensíni og olíu
„Það getur orðið gríðarleg orka ef það byrjar að brenna í rafhlöðunum á rafmagnsbíl og þá þarf svo ofsalegt magn af vatni og það er skaðlegt fyrir umhverfið“, segir Haukur Grønli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.
Það tók slökkviliðsmennina örstutta stund að kæfa eldinn undir teppinu og hindra þannig að súrefni kæmist að eldinum.

„Nei, það er alveg hægt að nota þetta líka við venjulega bíla. Við erum að taka þetta upp núna og erum að skoða þessar aðferðir. Við erum að byrja að kynna okkur þetta með rafmagnsvæðinguna og aðra eldsneytisgjafa“, segir Haukur enn fremur.
