Þrír bræður léku í sama leiknum í fyrsta sinn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta þegar New Orleans Pelicans sigraði Indiana Pacers, 120-98, í nótt.
Jrue Holiday leikur með New Orleans og Justin og Aaron Holiday með Indiana.
Um miðjan 3. leikhluta voru þeir allir saman inni á vellinum. Jrue átti að hvíla á þeim tíma en bað Alvin Gentry, þjálfara New Orleans, um að bíða með skiptinguna svo hann gæti spilað gegn bræðrum sínum.
The moment the first time in @NBAHistory three brothers shared the court at the same time... @Jrue_Holiday11 x @JustHolla7 x @The_4th_Holiday! pic.twitter.com/76ZTL510Uk
— NBA (@NBA) December 29, 2019
Foreldrar og fjölmargir ættingjar Holiday-bræðranna voru á leiknum í New Orleans.
Aaron, sem er yngstur, var stigahæstur bræðranna í leiknum með 25 stig. Justin, sá elsti, skoraði ekki stig en Jrue var með 20 stig, fimm fráköst og sjö stoðsendingar.
Jrue er langþekktastur þeirra bræðra og hefur leikið í NBA síðan 2009. Hann lék með Philadelphia 76ers í fjögur ár og á þeim tíma var hann valinn til að spila í Stjörnuleiknum. Jrue fór svo til New Orleans 2013.
Eftir leikinn skiptust Holiday-bræðurnir á treyjum og stilltu sér upp fyrir myndatöku.
The Holiday bros exchange jerseys after they became the first three brothers to share the same court in an NBA game! pic.twitter.com/Ac0Whm9YGH
— NBA (@NBA) December 29, 2019