Real Madrid sendir lið til leiks í efstu deild kvenna á Spáni á næsta tímabili. Félagið hefur ekki áður teflt fram kvennaliði en breyting verður þar á í vetur.
Real Madrid kaupir sæti nýliða CD Tacon í spænsku úrvalsdeildinni. Talið er að það kosti Real Madrid 500.000 evrur.
Áhuginn og metnaðurinn í kvennaboltanum á Spáni hefur aukist mikið undanfarin ár. Barcelona hefur t.a.m. lagt mikið í sitt kvennalið og sömu sögu er að segja af Atlético Madrid sem hefur orðið Spánarmeistari þrjú ár í röð.
Talið er að La Liga ætli að setja rúmlega 20 milljónir evra í kvennaboltann fyrir næsta tímabil.
Þá verða allir leikir í spænsku úrvalsdeildinni sýndir beint, annað hvort í sjónvarpi eða á veraldarvefnum.

