Þrír þeirra höfðu áður játað sök í málinu og verið dæmdir til dauða á lægra dómstigi í sumar, en dómstóllinn þyngdi dóminn yfir einum, úr lífstíðarfangelsi og í dauðadóm.
Khaled Fataoui, lögmaður aðstandenda hinnar dönsku Louisu Vesterager, segir í samtali við NRK að þeir þrír sem dæmdir voru til dauða í sumar vilji að dómnum verði fullnægt. Dauðadómi hefur ekki verið fullnægt í Marokkó frá árinu 1993.
„Þessir þrír sögðust ekki vilja hljóta dóm sem ekki yrði fullnægt,“ sagði Fataoui.

Vestager og hin norska Maren Ueland, 28 ára, voru saman á bakpokaferðalagi um landið og höfðu tjaldað í hlíðum Toubkal-fjalls í Atlasfjöllum suður af Marrakech. Þær fundust síðan látnar í hlíðum fjallsins mánudaginn 17. desember. Einn ódæðismannanna tók morðin upp á myndband en það fór síðar í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Auk þessara fjögurra manna voru tuttugu menn til viðbótar dæmdir í fangelsi í sumar, frá fimm árum og upp í þrjátíu árum, meðal annars fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum. Allir áfrýjuðu þeir dómunum, en í gær var dómi yfir einum þeirra þyngt í sjö ára fangelsi.