Íslenski boltinn

Lars Ivar Moldskred er búinn að semja við KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Ivar Moldskred.
Lars Ivar Moldskred. Mynd/Baldur
Norski markvörðurinn Lars Ivar Moldskred hefur samið við KR út leiktíðina en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag. Moldskred er 32 ára markmaður með reynslu úr norsku úrvalsdeildinni þar sem að hann spilaði með Molde, Lillestrøm og Strømsgodset.

Hér fyrir neðan er umfjöllun um kappann af heimasíðu KR.

Moldskred er Vestlendingur og lék upphaflega með Tjørvåg IL og síðan Bergsøy IL á sínum heimaslóðum.Árið 2000 gekk hann til liðs við IL Hødd. Ári síðar vakti hann fyrst athygli á landsvísu þegar Hødd (þá í næst efstu deild) sló margfalda meistara Rosenborg út í bikarnum eftir vítakeppni. Moldskred varði tvær spyrnur í vítakeppninni.

Moldskred lék 142 deildarleiki með Hødd og skoraði eitt mark, með skoti úr eigin vítateig í 7-0 sigri á Lørenskog árið 2002. Hann átti auk þess seinna á ferlinum eitt sláarskot eftir langt útspark.

Árið 2004 gekk hann til liðs við Molde, fór þaðan til Lillestrøm árið 2007 en í fyrra lék hann 26 leiki með Strømsgodset í úrvalsdeildinni. Í vetur stefndi í að hann færi til úrvalsdeildarfélagsins Kongsvinger IL en félagið valdi Thomas Myhre, fyrrum landsliðsmarkmann, í staðinn.

Á heimasíðu NISO (samtök íþróttamanna) lýsir Moldskred sínum helstu kostum: Góður einn á móti einum, góðar staðsetningar, stjórnar vörninni vel, viljugur til að æfa og mikill fagmaður, fljótur að koma boltanum í leik, "markmannstýpan" og óhræddur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×