Skoðun

Þinghelgi, friðhelgi, mannhelgi

Vilborg Halldórsdóttir skrifar
Alveg er hann með eindæmum þessi söngur um heilagleika „þinghelgi“ á Þingvöllum, samkomustaðar þjóðarinnar í þúsund ár. Þar má ekki endurbyggja Hótel Valhöll á besta og ákjósanlegasta staðnum bæði landfræðilega og fagurfræðilega séð, undir hamraveggnum.

Frárennslismál, mengun vatnsins! er galað hástöfum... en klósett má byggja fyrir túristana og það nóg af þeim. Hvert fer sá úrgangur? Hvar er þá þinghelgi frárennslismála? Eða þúsundir rútubíla sem þeysast gegnum þjóðgarðinn með tilheyrandi svifryksmengun fyrir vatnið. Og stutt í að Þingvallavatn verði ekki lengur blátt. Öll uppbygging ferðamála virðist byggjast á því að þjenusta ferðamanninn sem dvelur á stað í 40 mínútur og tekur selfie. Framtíðarsýn, fyrirhyggja!? Nei, rörsýni þeirra sem um stjórnartauma skipulagsmála halda að mínu mati.

Og hvað með kolkrabbavæðingu ferðamannaiðnaðarins? Þeir sem græða mest á túrismanum eru örfá fyrirtæki. Þangað safnast auðurinn til nýju kvótagreifanna. Ekki má setja á komugjöld og hafa þau inní verði flugmiða til dæmis eða setja á gistináttagjald..... kannski jafnvel fjármagna með því fé til landvörslu og vegagerð sem yrði ÖLLUM til góða. Nei, það hugnast ekki sumum.

Hvar er mannhelgi og friðhelgi íbúa Reykjavíkur, þegar leyfa á hótelkeðjurisa að byggja við Landsímahúsið og nýta Fógetagarðinn sem hótelanddyri: Iceland Parlia­ment Hotel... afsakið meðan ég æli, sem þrengja mun að Austurvelli með tilheyrandi skuggavarpi. Grænt svæði hvar almenningur safnast saman á góðviðrisdögum.

Mannhelgi – friðhelgi – þinghelgi … Af hverju breytum við ekki bara MR í hostel? Er ekki einhver græðgispungur til í að bjóða líka í það hús? Var Hjartagarðurinn og Slippasvæðið ekki nóg fyrir fjárfestana sem eru að kaupa upp miðbæinn og breyta honum í hótel. Vituð ér enn, eða hvað? … öll borgarstjórn og skipulagsfræðingar hennar ... og spin-doktorar ferðamála!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars.




Skoðun

Sjá meira


×