Erlent

Forseti Ungverjalands endurkjörinn

Atli Ísleifsson skrifar
János Áder, forseti Ungverjalands, hefur verið endurkjörinn af ungverska þinginu og mun hann gegna embættinu næstu fimm árin.

Áder tilheyrir líkt og forsætisráðherrann Viktor Orbán flokknum Fidesz og er litið á kjörið sem sigur fyrir Orbán í aðdraganda þingkosninganna í landinu sem fyrirhugaðar eru á næsta ári.

Hinn 57 ára Áder hefur stutt vel við bakið á forsætisráðherranum Orbán á síðustu árum, en Áder tók við forsetaembættinu árið 2012.

Forsetaembættið í Ungverjalandi er að stærstum hluta valdalaust.

Áder hlaut 131 atkvæði í kjörinu, en frambjóðandi vinstrimanna, Laszlo Majtenyi, 39. 29 þingmenn sátu hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×