Innlent

Ísland ein þunglyndasta þjóð Evrópu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ísland er í fjórða sæti yfir fjölda fólks með þunglyndiseinkenni, samkvæmt evrópsku heilsufarsrannsókninni 2015 sem birt er á vef Hagstofunnar í dag. Þunglyndiseinkenni eru algengari hjá ungum konum á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum.

Tæplega níu prósent fólks á Íslandi mældist með þunglyndiseinkenni, en það er fjórða hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í rannsókninni. Þá voru rúm fjögur prósent með mikil einkenni og er Ísland þar með næsthæsta hlutfallið.

Flestir mældust með þunglyndiseinkenni í Ungverjalandi, rúm tíu prósent, en fæstir í Tékklandi, rúm þrjú prósent. Af Norðurlöndunum var þetta hlutfall hæst í Svíþjóð, eða rúm níu prósent, en lægst í Finnlandi, rétt undir fimm prósentum. Noregur og Danmörk voru á svipuðu róli með rúmlega sex prósent.

Þá eru konur á Íslandi líklegri til að hafa þunglyndiseinkenni en karlar, tæp ellefu prósent á móti sjö prósent karla. Fleiri ungar konur á aldrinum 15-24 ára mældust með þunglyndiseinkenni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi, eða tæp átján prósent. Svíþjóð og Danmörk komast næst Íslandi með um fimmtán prósent. Hlutfallið er lægst á Kýpur og í Litháen, kringum 0,5 prósent, og Tékklandi, tæplega eitt prósent.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var framkvæmd á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×