Erlent

Rob Ford ætlar að sækjast eftir endurkjöri

Jóhannes Stefánsson skrifar
„Ég hef verið besti borgarstjóri sem þessi borg hefur nokkru sinni haft," sagði Rob Ford, borgarstjóri Toronto við kanadíska blaðamenn í tilefni þess að hann hyggðist sækja eftir endurkjöri sem borgarstjóri.

Rob Ford komst í sviðsljós heimspressunnar eftir að hafa náðst á myndband reykja krakk. Í fyrstu neitaði hann öllum ásökunum fjölmiðla en síðla seinasta árs játaði hann mistökin og baðst afsökunar. Hann sagðist hafa reykt krakkið í „ölæði".

Ford hefur verið borgarstjóri síðan 2010 þegar hann hét því að draga úr sóun almannafés.

„Gjörðir mínar tala sínu máli. Við erum með lægstu skatta af öllum stórborgum Norður Ameríku," sagði Ford. „Borgin gjörsamlega blómstrar... Ég hef tekist á við vandamál sem aðrir borgarstjórar hafa ekki getað tekist á við."

Ford hefur verið sakaður um kynþáttafordóma, að hafa hótað starfsfólki, kynferðislega árætni og neyslu fíkniefna, en hann hafnar ásökununum.

Ford er þrátt fyrir allt vinsæll á meðal sumra kjósenda, enda þykir mörgum hann hafa staðið sig mjög vel í starfi borgarstjóra. Ford segir að það sé á endanum kjósenda að gera upp við sig hvort vandamál hans í einkalífinu eigi að verða þess valdandi að hann verðskuldi ekki endurkjör.

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá þegar Rob Ford gengst við ásökunum um að hafa reykt krakk á sinn einstaka máta.

BBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×