Sport

Vetrarhlé yrði ensku deildinni til framdráttar

Sir Alex vill innleiða vetrarfrí í enska boltann
Sir Alex vill innleiða vetrarfrí í enska boltann NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur nú enn á ný látið þá skoðun sína í ljós að vetrarhlé myndi gera ensku knattspyrnunni gott, en slíkt hlé tíðkast víða á meginlandi Evrópu. Ferguson segir upplagt að hafa þriggja vikna frí í upphafi janúar og spila frekar út maí í staðinn.

"Ég hef verið öflugur talsmaður þessa fyrirkomulags allar götur síðan ég stýrði Aberdeen í upphafi 9. áratugarins og sannarlega alveg síðan ég tók við hérna (hjá United árið 1986). Ég veit að jólaleikirnir í enska boltanum eru að vísu mjög vel sóttir og vinsælir, en af hverju ekki að taka þriggja vikna frá frá 1. janúar og spila frekar út maí í staðinn - það er líka miklu betra veður á þeim tíma. Menn eru hvort sem er farnir að spila landsleiki í byrjun júní og gætu þá farið í þá í góðri æfingu," sagði Ferguson - en hann er ekki einn um þessa skoðun og hefur fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga, Sven Göran Eriksson, einnig ljáð máls á þessu í gegn um tíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×