Sport

Hótaði að skora sjálfsmark

William Gallas
William Gallas NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gefið út yfirlýsingu þar sem fram kemur að það hafi neyðst til að selja varnarmanninn William Gallas á dögunum, því hann hafi hótað að skora sjálfsmark með Chelsea ef hann yrði látinn spila annan leik fyrir félagið.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Chelsea hafi tjaldað öllu til að halda Gallas áfram í herbúðum félagsins, en öfugt við það sem leikmaðurinn hafi sagt í fjölmiðlum, hafi það verið peningagræðgi hans sem varð þess valdandi að hann undirritaði ekki nýjan samning.

Einnig kemur fram að Gallas hafi neitað að spila undanúrslitaleikinn við Liverpool í FA bikarnum á síðustu leiktíð og þegar liðið var í vandræðum með varnarmenn fyrir leikinn gegn Manchester City í upphafi leiktíðar nú í sumar - hafi Gallas hótað að skora viljandi sjálfsmark eða láta reka sig útaf ef hann yrði neyddur til að spila.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að forráðamönnum Chelsea þyki það aumt af Gallas að sýna félaginu ekki meiri hollustu en raun hafi borið vitni, því hjá félaginu hafi hann orðið að stjörnu og unnið titla og hafi í besta falli geta státað af sigri í frönsku 2. deildinni áður en hann gekk til liðs við Englandsmeistarana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×