Innlent

„Vonandi vitum við á morgun, eða ekki seinna en þriðjudag, hvort við náum saman“

Birgir Olgeirsson skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Vísir/Ernir
„Við getum sagt að alls staðar þokast eitthvað,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, um stjórnarmyndunarviðræður formanna Sjálfstæðisflokksins, Bjartar framtíðar og Viðreisnar.

Þeir hittust klukkan tíu í morgun en bundu enda á fundahöldin klukkan níu í kvöld og er því ellefu tíma törn lokið.

Benedikt vildi ekki gefa upp hvar var fundað en greint var frá því á Vísi fyrr í dag að formennirnir hefðu fundað í heimahúsi rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Sjá einnig: Fundað fyrir utan höfuðborgarsvæðið

Þrír einstaklingar úr hverjum flokki, sem ýmist eru þingmenn eða aðstoðarmenn ásamt formönnum flokkanna, eru í málefnanefndum sem hófu undirbúning stjórnarsáttmálans í gær.

„Við hittumst hér og þar,“ segir Benedikt en spurður hvort formennirnir hafi ekki allir verið á sama stað meðan fundað var segir hann það hafa verið misjafnt. „Við erum líka að funda með okkar fólki inn á milli.“

Ljóst er að ágreiningur er á milli flokkanna er varðar málefni landbúnaðar, sjávarútvegs og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið.

Benedikt segir í samtali við Vísi að flokkunum hafi miðað eitthvað áfram í flestum málum í dag.

„Vonandi vitum við á morgun, eða ekki seinna en þriðjudag, hvort við náum saman.“

Hann segir ekki búið að ákveða tíma fyrir fund á morgun. Hann á því von á því að hitta sitt fólk fyrst á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×