Innlent

Ómar vill ekkert hringl með klukkuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ómar segir ákveðnar ástæður vera fyrir því að klukkan er eins og hún er.
Ómar segir ákveðnar ástæður vera fyrir því að klukkan er eins og hún er.
„Verum ekkert að hringla með klukkuna," segir Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður. Eins og Vísir sagði frá í morgun er þverpólitísk samstaða um það á Alþingi að seinka klukkunni um klukkustund. Tillaga þess efnis hefur verið lögð fram á Alþingi. Ómar Ragnarsson minnist þess tíma þegar að klukkutímamunur var á sumar- og vetrartíma á Íslandi. Hann segir á bloggvef sínum að rök hafi verið færð fyrir því þegar að sérstakur vetrartími var numinn úr gildi og klukkan færð í það horf sem hún er núna.

„Aðalástæða sumartímans var sú að á okkar norðlæga landi, þar sem sólin er lægra á lofti en í suðlægari löndum þótti það gott að fólk væri komið úr vinnu klukkustundu fyrr en ella til þess að njóta sólarinnar síðdegis. Samskipti okkar við Evrópu eru einnig miklu meiri en við Ameríku og þægindi fólgin í því að færa klukkuna nær Evrópu þótt það kosti óþægindi vegna samskipta vestur um haf," segir Ómar

Ómar segir að nauðsynlegt sé að vega og meta hlutina og spyr hvort ekki sé dýrmætara að fólk geti notið sólar lengur og betur þann langa tíma þegar hún er hærra á lofti um sumartímann heldur en í þær tíu vikur af 52 vikum ársins, sem rökkur er á morgnana að vetrarlagi.




Tengdar fréttir

Þingmenn vilja fækka myrkum morgnum

Klukkunni á Íslandi verður seinkað um klukkustund, verði þingsályktunartillaga fjórtán þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi samþykkt. Gert ráð fyrir að fundin verði hentug tímasetning til þess að ráðast í aðgerðina innan árs frá samþykkt þingsályktunartillögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×