Fótbolti

Adam snýr aftur til Noregs

Sindri Sverrisson skrifar
Adam Örn Arnarson á æfingu með Tromsö.
Adam Örn Arnarson á æfingu með Tromsö. mynd/til.no

Knattspyrnumaðurinn Adam Örn Arnarson er genginn í raðir Tromsö í Noregi frá pólska félaginu Gornik en hann kemur frítt til félagsins.

Adam hefur verið við æfingar með Tromsö á Spáni og stóð sig vel, og lagði meðal annars upp mark í leik við Viking á sunnudag. Hann skrifaði undir samning sem gildir út næsta ár.

Tromsö leikur í næstefstu deild Noregs eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð á markatölu.

Adam hefur áður leikið í Noregi, með Aalesund, en þaðan fór hann til Gornik í Póllandi fyrir rúmu ári síðan. Adam, sem er 24 ára hægri bakvörður, hóf feril sinn með Breiðabliki, en fór þaðan til NEC Nijmegen í Hollandi og hefur einnig verið á mála hjá Nordsjælland í Danmörku.

„Adam stóð sig fínt í Aalesund árin sem hann var þar og er flott týpa sem við teljum að geri mikið fyrir okkur á æfingum á hverjum degi. Við hlökkum til að fá Adam til Tromsö,“ sagði Lars Petter Andressen, aðstoðarþjálfari Tromsö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×