Enski boltinn

City stóð við sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manchester City er komið upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú bara einu stigi á eftir toppliði Liverpool.

City vann öruggan 4-1 sigur á Southampton á heimavelli í dag og komst með sigrinum upp í 70 stig. Liðið á þar að auki leik til góða gegn Liverpool en liðin mætast um næstu helgi.

Heimamenn komust yfir með marki úr vítaspyrnu strax á þriðju mínútu er Jose Fonte braut á Edin Dzeko. Yaya Toure skoraði örugglega úr henni.

Rickie Lambert jafnaði metin á 37. mínútu, einnig úr vítaspyrnu eftir að Pablo Zabaleta braut á Jack Cork.

Samir Nasri endurheimti forystuna fyrir City í uppbótartíma fyrri hálfleiks með skoti af stuttu færi eftir sendingu David Silva. Sá síðarnefndi var reyndar kolrangstæður þegar hann fékk sendingu inn fyrir vörn gestanna.

Dzeko og varamaðurinn Stevan Jovetic kláruðu svo leikinn fyrir City í síðari hálfleik en bæði mörkin voru skoruð af stuttu færi.

Southampton er í áttunda sætinu með 48 stig en liðið varð fyrir miklu áfalli í dag er Jay Rodriguez virtist meiðast illa á hné. Hann var borinn af velli í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×