Fótbolti

Guardiola og Messi: Erfiðasti titillinn hingað til

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pep Guardiola ánægður eftir leikinn í gær. Mynd / Getty Images
Pep Guardiola ánægður eftir leikinn í gær. Mynd / Getty Images
Pep Guardiola og Lionel Messi voru báðir virkilega ánægður með deildarmeistaratitilinn í gær og lýstu því yfir að þetta hafi verið erfiðasti deildartitillinn hingað til.

Barcelona tryggði sér spænska deildarmeistaratitilinn eftir jafntefli, 1-1, gegn Levante í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Þetta var þriðja árið í röð sem Barcelona vinnur deildina og því varð allt vitlaust í Katalóníu í gærkvöldi.

„Deildin hefur verið sérstaklega erfið í ár og því erum við gríðarlega ánægðir í kvöld,“ sagði Pep Guardiola, framkvæmdarstjóri liðsins, í gærkvöldi.

„Við vorum frábærir 3/4 af tímabilinu en núna undir lokin gáfum við aðeins eftir og áttum erfitt með að koma boltanum í netið“.

„Undanfarinn tvö tímabil hefur álagið verið þvílíkt á leikmönnum liðsins og þeir hafa varla tekið sér dag í frí. Þetta virðist vera segja til sín núna,“ sagði Pep.

„Ég er himinlifandi með að hafa náð þessum áfanga,“ sagði Lionel Messi eftir leikinn í gær.

„Þessi titill var sá erfiðasti. Við erum búnir að leggja gríðarlega mikla vinnu á okkur í allan vetur og lögðum sérstaka áherslu á stórleikina gegn Real Madrid, en að hafa yfirhöndina í  innbyrðisviðureignum er svo mikilvægt undir lokin. Núna þurfum við bara að njóta þess að vera meistarar“.

Messi skoraði 31 mark í deildinni í vetur og hefur átt hreint út sagt stórkostlegt tímabil fyrir Börsunga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×