Innlent

Tómas birtir myndir frá göngum Landspítalans: „Þröngt mega sjúkir liggja“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er samsett.
Myndin er samsett. Vísir/Tómas Guðbjartsson/Pjetur
„Einhver sagði mér í morgun að ástandið á spítalanum væri slæmt,“ skrifar Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir á Landspítalanum á Facebook-síðu sína í dag. Þar birtir hann myndir sem sýna hve lítið pláss er fyrir sjúklinga á spítalanum.

„Þröngt mega sjúkir liggja,“ skrifar Tómas og bendir á að ástandið á spítalanum hafi verið slæmt síðustu vikur sem og vikurnar þar á undan.

Færslan er áþekk annarri færslu Tómasar sem hann birti fyrir jól. Þar gagnrýndi hann yfirvöld harðlega og benti á að gangainnlagnir væru meinsemd í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Á myndunum sem fylgja með færslunni, og sjá má hér að neðan, má sjá hvernig sjúklingum er komið fyrir í borðstofum, setustofum og göngum á flestum leigudeildum Landspítalans við Hringbraut.

„Borðstofa með sjúkrarúmi. Eini kosturinn við þessa stofu er að hún er með risastórum sjónvarpsskjá sem er hugsaður fyrir sjúklinga sem ekki eru rúmfastir og geta tyllt sér í borðstofuna,“ skrifar Tómas við eina myndina þar sem sjá má hvernig búið er að koma fyrir sjúklingi í borðstofu.

Orðið stofulæknir fái nýja merkingu

Eftir færslu Tómasar í desember skapaðist töluverð umræða um ástandið á Landspítalanum. Landlæknir sagði í kjölfarið að ástandið á spítalanum væri í raun „ekki mjög slæmt“ en að ekki væri ásættanlegt að fólk liggi á göngum.

Þá sakaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Tómas um að hafa sviðsett myndirnar sem fylgdu færslunni. Því vísaði Tómas alfarið á bug.

Enn virðist Tómas þó bíða eftir því að ástandið verði lagað en í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar var því heitið að heilbrigðismál yrðu sett í forgang.

„Tíminn líður og ekkert gerist. Bráðum fer maður að taka sér titilinn ganga-yfirlæknir" og orðið „stofulæknir“ fær nýja merkingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×