Fótbolti

Hjartnæm stund þegar þeir sem lifðu af Chapecoense-flugslysið komu inn á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vináttulandsleikur Brasilíu og Kólumbíu, sem var settur á til að safna pening fyrir fjölskyldur leikmanna og starfsmanna Chapecoense sem fórust í flugslysi í nóvember, tókst vel en hann fór fram í Ríó.

Alls söfnuðust um 44 milljónir króna í kringum leikinn sem endaði með 1-0 sigri Brasilíumanna. Framherjinn Dudu skoraði eina markið með skalla í seinni hálfleik.

Fjórir sem lifðu af slysið voru á vellinum en það voru þrír leikmenn og einn úrvarpsmaður. Þeir voru heiðraðir á Ólympíuleikvanginum í Ríó fyrir leikinn.  Þetta var mjög hjartnæm stund en það fór samt ekkert á milli mála að þessir fjórir hafa lifað erfiða tíma andlega sem líkamlega þessa tæpu tvo mániði síðan slysið varð.

Chapecoense missti 43 í slysinu, 19 leikmann og 24 starfsmenn, en liðið var á leið í leik á móti kólumbíska liðinu Atlético Nacional í úrslitum Copa Sudamericana keppninnar. Aðeins 6 af 77 í flugvélinni lifðu af slysið sem varð 28. nóvember síðastliðinn.

Chapecoense hefur náð að safna nýju liði en félagið fékk lánaða leikmenn frá öðrum félögum í Brasilíu til þess að ná að klára tímabilið.

Fyrsti leikurinn var 2-2 jafntefli á móti Palmeiras í vináttuleik á laugardaginn. Douglas Grolli og Amaral skoruðu mörkin. Grolli kom á láni frá Cruzeiro en kom á láni frá Palmeiras.

Það var líka önnur tilfinningarík stund þegar markvörðurinn Jackson Follmann, sem lifði af slysið en missti annan fótinn, tók við Copa Sudamericana bikarnum fyrir leikinn á móti Palmeiras.

Þessir fjórir lifðu af slysið. Leikmennirnir Neto, Follmann og Alan Ruschel og svo útvarpsmaðurinn Rafael Henzel.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×