Þjóðverjinn Heinz Bernhard Sommer og Rúmeninn Victor Sorin Epifanov hafa verið dæmdir í sjö ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir smygl á tæpum fjörutíu kílóum á amfetamíni og fimm kílóum af kókaíni. Mennirnir voru handteknir laugardaginn 3. ágúst við komuna til landsins með Norrænu. Fréttablaðið greindi fyrst frá niðurstöðunni.
Fíkniefnin voru falin í innanverðri farangursgeymslu bíls af gerðinni Austin Mini Cooper. Að því er fram kom í ákærunni var amfetamínið að 70 prósent styrkleika en kókaínið tæp 82 prósent. Um er að ræða eitt mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á hér á landi.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari fór fram á tíu ára fangelsi yfir mönnunum. Þorgils Þorgilsson, lögmaður Þjóðverjans, tjáði fjölmiðlum við dómsuppsögu að honum þætti dómurinn þungur.
Héraðsdómur féllst á kröfu ákæruvaldsins að gera bílinn upptækan sem og fíkniefnin.