Fótbolti

Nýju Nike-treyjunar eru eitt af því fáa sem hægir á Barcelona-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félögum líður ekki vel í nýju Nike-treyjunum.
Lionel Messi og félögum líður ekki vel í nýju Nike-treyjunum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Leikmenn Barcelona eru allt annað en sáttir við nýju Barcelona-treyjurnar sem voru teknar í notkun fyrir þetta tímabil. Það er að heyra á þessu nýja hitamáli á Nývangi að eitt af því fáa sem nær að hægja á leikmönnum Barcelona þessa dagana séu hinar umræddu Nike-treyjur. Þær virðast safna í sig raka og ná því oft að  meira en tvöfalda þyngd sína í einum hálfleik.

Forráðamenn Barcelona hafa viðurkennt það að leikmenn liðsins séu ósáttir með nýju treyjurnar sem safna í sig bleytu og festast við líkamann. Spænska blaðið El País greindi frá því að leikmenn Barca höfðu meðal annars tekið upp á því að vikta treyjur sínar fyrir leik og í hálfleik.

Treyja sem vóg 200 grömm fyrir leikinn var meira en tvisvar sinnum þyngri þegar leikmenn komu inn í búningsklefann í hálfleik. Leikmenn Barcelona voru farnir að kvarta undan því strax á undirbúnningstímabilinu að teyjan væri nýþung og að hún festist við skrokkinn á þeim eins og snigill.

Treyjan sem kostar 63 evrur út í búð, eða rúmar tíu þúsund krónur, er umhverfisvæn og gerð úr endurnýjuðum plastflöskum. Í lýsingunni á styrkleikum hennar kemur fram að hún eigi ekki að safna í sig raka en samkvæmt fyrrnefndum fréttum úr herbúðum Spánarmeistaranna eru leikmenn Barcelona greinilega ekki að fá þá útgáfu af þessum umdeildu treyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×