Fjórði einstaklingurinn hefur nú látist í Kína af völdum kórónaveirunnar sem dreifst hefur um landið síðustu daga. Heilbrigðisyfirvöld í landinu hafa nú einnig staðfest smit geti borist frá manni til manns.
Nýjasta fórnarlambið var tæplega níræður maður í borginni Wuhan þar sem veikin virðist eiga uppruna sinn en þeir sem smitast fá skæða lungnabólgu.
Rúmlega 200 tilfelli hafa nú verið staðfest, flest í Wuhan, sem er ellefu milljón manna borg, en einnig er um tilfelli að ræða í höfuðborginni Beijing og í Shanghæ. Í Wuhan hafa fimmtán heilbrigðisstarfsmenn smitast og er einn þeirra í alvarlegu ástandi en hinum er haldið í einangrun.
Xi Jinping, forseti Kína, segir það að stöðva útbreiðslu veirunnar og bjarga lífum vera í forgangi hjá yfirvöldum. Nú í vikunni hefst þó áramótahátíð Kínverja og munu hundruð milljónir þeirra leggja land undir fót, samkvæmt frétt Reuters.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur boðað til neyðarfundar vegna kórónaveirunnar og lækkun hefur verið á hlutabréfamörkuðum í Asíu, sem rakið er til ótta vegna veirunnar. Hækkun á hlutabréfaverði lyfjafyrirtækja og grímuframleiðenda hefur sömuleiðis verið rakin til veirunnar.