Innlent

Framsókn hissa á fjárnámsfrétt

Framsóknarhúsið Framsóknarflokkurinn undrast ummæli framkvæmdastjóra JCDecaux.Fréttablaðið/valli
Framsóknarhúsið Framsóknarflokkurinn undrast ummæli framkvæmdastjóra JCDecaux.Fréttablaðið/valli
Viðræður hafa staðið yfir milli Framsóknar í Reykjavík og forsvarsmanna fyrirtækisins JCDecaux, sem á og rekur strætóskýli borgarinnar, um uppgjör skuldamáls þeirra. Þess vegna segir lögmaður flokksfélagsins frétt Fréttablaðsins í gær af árangurslausu fjárnámi hjá flokknum koma „verulega á óvart".

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaðurinn Snorri Sturluson hefur sent fjölmiðlum. Þar segist hann jafnframt hissa á ummælum framkvæmdastjóra JCDecaux í Fréttablaðinu, í ljósi þess að unnið hafi verið að lausn málsins.

Framkvæmdastjórinn Einar Hermannsson sagðist í Fréttablaðinu í gær ekki vera búinn að ákveða sig hvort hann mundi krefjast þess að Framsókn í Reykjavík yrði tekin til gjaldþrotaskipta, eins og hægt er að gera innan þriggja vikna frá árangurslausu fjárnámi.

Deilan snýst um skuld vegna auglýsinga í strætóskýlum fyrir alþingiskosningarnar 2009. JCDecaux telur Framsókn skulda sér 3,6 milljónir en flokksfélagið telur að þáverandi kosningastjóri þess, Hallur Magnússon, hafi gert munnlegt samkomulag um mun lægri greiðslu. Héraðsdómur hefur dæmt JCDecaux í vil í málinu.

Snorri segir að „meint skuld" verði greidd upp þegar samningar liggi fyrir eða Hæstiréttur hafi kveðið upp lokaorð í málinu. Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, segir að flokksfélagið í Reykjavík eigi sama og engar eignir, en komi til þess að greiða þurfi skuldina verði það mál leyst. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×