Viðskipti innlent

Búið að semja við bankana um brúarlánin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Seðlabankinn er búinn að semja við viðskiptabankana.
Seðlabankinn er búinn að semja við viðskiptabankana. Vísir/Hanna

Samningar hafa verið undirritaðir við viðskiptabankana fjóra um veitingu viðbótarlána til fyrirtækja, svonefndra brúarlána.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól Seðlabanka Íslands að annast framkvæmd á ábyrgðum ríkissjóðs og hefur bankinn undirritað samninga við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku og Landsbankann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu þar sem segir að lánin séu ætluð fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum, sem orðið hafa fyrir tímabundnum rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir allt að 70 prósent af fjárhæð lánanna sem fyrirtæki geta fengið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hluti á meðan ríkisábyrgðar nýtur við. Heildarábyrgð ríkissjóðs í þessum efnum getur numið allt að 50 milljörðum króna.

Haft er eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra á vef Seðlabankans að með þessu opnist nýr möguleii fyrir að aðþrengd fyrirtæki að sækja sér rekstrarfé.

„Bönkunum er nú ekkert að vanbúnaði að hefja vinnu á grunni samninganna með það að markmiði að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann. Þetta úrræði ætti að gefa þjóðarskútinni einhvern byr í seglin á komandi misserum,“ segir Ásgeir Jónsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×