Skoðun

Dúfnadauði í Hafnarfirði

Árni Stefán Árnason skrifar
Í lögum um velferð dýra eru mjög nákvæm ákvæði, með hvaða hætti aðbúnaður dýra skuli vera og í lögunum segir jafnframt, að öryggi þeirra skuli tryggt. Refsivert getur verið, sé um alvarleg frávik frá ákvæðum laga um dýravelferð að ræða.

Nýlega brast út eldur í dúfnakofa nálægt Straumsvík þar sem talið er, að yfir 200 dúfur hafi orðið eldinum að bráð. Dauði sumra þeirra, ef ekki allra hefur ekki verið þjáningalaus.

Aðbúnaður fuglanna á þessum stað hefur sætt gagnrýni. Það er greinarhöfundi kunnugt um. Ekki fjarri þessum stað, á Völlunum í Hafnarfirði eru allmargir dúfnakofar, sem greinarhöfundi er kunnugt um, að gerðar hafa verið athugsemdir við af heilbrigðisyfirvöldum vegna slælegs aðbúnaðar.

Eftirlit með dýrahaldi í suðvesturumdæmi, sem og á öðrum stöðum á landinu er í höndum Matvælastofnunar og umráðamanna. Ábyrgð á umhirðu, atlæti, aðbúnaði og öryggi dýra bera umráðamenn. Augljóst er þó, að eftirlit Matvælastofnunar brást í þessu tilviki. Með þessum tíðindum tekur stofnunin vonandi á þessu dýrhaldi og skerpir eftirlit sitt.

Af fréttum má ráða, að ekkert öryggiskerfi hafi verið til staðar á 200 fugla dúfnabúi. Það er óskiljanlegt. Reykskynjarar tengdir öryggisþjónustu, slökkvikerfi eins og þekkist í ýmsum verslununum hefði getað komið í veg fyrir þennan alvarlega atburð, sem ég tel að skrifist á gáleysi umráðamanna og skort á eftirlitisskort.

Þar sem ég er nokkuð kunnugur dúfnahaldi á Íslandi, sem ég hef ástæðu til að ætla að sé almennt til fyrirmyndar hlýt ég að skora á Matvælastofnun að taka þetta dýrahald til sérstakrar skoðunar. Svona atvik eiga ekki að geta komið upp ef umráðamenn nýta sér fullkomnustu öryggistækni, sem völ er á. Það tel ég að ætti að vera skylt að gera allsstaðar þar, sem mikill fjöldi dýra er haldinn. Ekki síst þar, sem slíkt dýrhald er fjarri mannabyggð eins og raunin er með dúfnakofana í Straumsvík.




Skoðun

Sjá meira


×