Innlent

Lánveiting í Búðarháls yrði jólagjöfin

Vonir eru bundnar við að Fjárfestingarbanki Evrópu muni í vikunni samþykkja að afgreiða lán til Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar í ljósi nýrrar stöðu í Icesave-málinu. Verkstjóri Ístaks á virkjunarsvæðinu segir að það yrði jólagjöfin í ár.

Ef lánin komast í gegn má búast við starfsmannafjöldinn á Búðarhálsi fari fljótlega yfir eitthundrað manns enda eru þar hafnar 26 milljarða króna stórframkvæmdir. Vinnu er hins vegar haldið í lágmarki meðan lánamálin eru í óvissu og þannig voru bara sextán manns á svæðinu þegar fréttamenn Stöðvar 2 voru þar í síðustu viku.

Fréttastofan hefur áður skýrt frá því að Fjárfestingabanki Evrópu hafi frestað að afgreiða lán með þeim óformlegu skilaboðum að þar á bæ vildu menn sjá framþróun í Icesave-deilunni. Stjórn bankans kemur saman í vikunni og hérlendis binda menn vonir við að þau samningslok, sem nú liggja fyrir í Icesave-málinu, nægi stjórn bankans til að afgreiða lánið og hún muni ekki bíða eftir lögfestingu Alþingis.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali í fréttastofu að það væri mjög jákvætt að nýr Icesave-samningur lægi fyrir og það myndi liðka fyrir lánveitingu. Hann vildi þó engu spá um hvort stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu myndi afgreiða málið í vikunni.

Á Búðarhálsi spurðum við Benedikt Benediktsson, verkstjóra Ístaks, hvort Icesave væri lausnarorðið. Benedikt svarar að það sé altalað að aðgengi að fjármagni sé þungt vegna Icesave en kveðst vona að það verði jólagjöfin þeirra í ár að fá Búðarhálsinn á fulla ferð. Það vilji allir að Icesave leysist. Það verði að koma verkefnum af stað í landinu. Það hljóti allir að vilja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×