Innlent

Um helmingur greindra í skimun einkennalaus eða einkennalítill

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. Lögreglan

Um helmingur þeirra sem hefur greinst með kórónuveiruna í skimun Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið einkennalaus eða einkennalítill að sögn sóttvarnalæknis. Þó vísbendingar séu um að þessir einstaklingar smiti síður felist í þessu áskorun fyrir heilbrigðisyfirvöld.

Íslensk erfðagreining hóf að skima fyrir kórónuveirunni tólfta mars og hafa um 14.400 manns verið farið í sýnatöku. Þeir sem hafa greinst með sjúkdóminn eru innan við eitt prósent. Þá tók fyrirtækið slembiúrtak í síðustu viku, alls 2300 manns og reyndist 0,6 % af fólki í úrtakinu smitað af veirunni. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að um helmingur greindra þar hafi verið einkennalaus.

„Það er að koma berlega í ljós núna sérstaklega í sýnatökum Íslenskrar erfðagreiningar að um helmingur þeirra sem greindist jákvæður var með lítil sem engin einkenni. Þetta er ákveðið vandamál. Við höfum verið að beita einangrun og sóttkví. Við náum hins vegar ekki til allra það er algjörlega vonlaust nema að verið væri að prófa alla nokkrum sinnum í viku sem er ógerlegt,“ segir Þórólfur.  

Á upplýsingafundi almannavarna og Landlæknis í dag kom fram að staðfest smit eru 1486 staðfest smit þar af 69 síðasta sólahring. Um þriðjungur hefur náð bata. 38 eru á sjúkrahúsi. 12 á gjörgæslu og 9 eru í öndunarvél. 3 hafa farið af öndunarvél. Alls hafa verið tekin 25.394 sýni sem er um 7% þjóðarinnar.

„Þær aðgerðir sem við höfum gripið til hafa skilið árangri og hafa verndað spítalana. En það má ekki mikið útaf bregða. Til að mynda höfum við séð hópsýkingar út á landi sem geta breytt stöðunni,“ segir Þórólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×