Erlent

Til­rauna­lyf vekur vonir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Niðurstöður tilraunameðferðar með lyfið Remdesivir gefa vonarglætu um að það geti hjálpað í baráttunni gegn kórónuveirunni.
Niðurstöður tilraunameðferðar með lyfið Remdesivir gefa vonarglætu um að það geti hjálpað í baráttunni gegn kórónuveirunni. EPA/Sebastiao Moreira

Tveir af hverjum þremur sem veikst hafa alvarlega af völdum Covid-19 sýna batamerki eftir að hafa hlotið meðferð með tilraunalyfinu Remdesivir sem framleitt er af bandaríska lyfjafyrirtækinu Gilead. Lyfið var gefið sjúklingum sem lágu á sjúkrahúsum í öllum heims hornum, í Evrópu, Kanada, Bandaríkjunum og Japan. Allir fengju sjúklingarnir tíu daga skammt af lyfinu í æð en sjúklingarnir sem tóku þátt voru 61 talsins.

Niðurstöður tilraunarinnar voru birtar í læknavísindaritinu New England Journal of Medicine í gær. Sjúklingarnir sem tóku þátt í tilrauninni hlutu mismunandi meðferðir samhliða tilraunalyfinu á meðan á ferlinu stóð en ekki var gert grein á milli mismunandi meðferða í greininni. Þá voru gögn átta sjúklinga ekki birt en í tilfelli eins sjúklingsins var gerð villa í tilrauninni.

Lyfið var gefið sjúklingunum í æð en þrjátíu þeirra voru í öndunarvélum við upphaf meðferðarinnar og fjórir í vélum sem aðstoða við blóðflæði. Átján dögum eftir að meðferð lauk hafði súrefnisinntaka 36 sjúklinga, þar af sautján þeirra 30 sem voru í öndunarvél batnað. Það gerir um 68 prósent þeirra sem tóku þátt í tilrauninni. Sjúklingar sem höfðu tekið þátt og voru útskrifaðir af sjúkrahúsi voru 25 talsins en sjö sjúklinganna létust. Tólf sjúklingar, um 23 prósent þátttakenda, fengu alvarlegar aukaverkanir þar á meðal nýrnabilun eða lifraskemmdir.

Þrátt fyrir þetta segir höfundur greinarinnar að niðurstöður rannsóknarinnar veki vonir. Erfitt sé þó að túlka þær þar sem ekki sé samanburðarhópur til staðar eins og almennt á við með lyfjatilraunir auk þess sem sjúklingahópurinn hafi verið mjög fámennur.


Tengdar fréttir

Starfsfólk CO­VID-deilda tekur þátt í dans­á­skorun

Starfsfólk á nýoppnaðri COVID-deild Sjúkrahússins á Akureyri, starfsfólk COVID-19 gagnasöfnunarteymisins á Egilsstöðum og starfsfólk smitsjúkdómadeildar Landspítalans tóku öll þátt í dansáskorunn í dag til að lyfta sér upp þrátt fyrir erfiðar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×