Erlent

Reyna að stöðva útbreiðslu veirunnar frá Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir Kínverjar búa og vinna í Rússlandi.
Fjölmargir Kínverjar búa og vinna í Rússlandi. AP/Dong Baosen

Yfirvöld Kína vinna nú hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar teygi anga sína aftur til Kína. Fjöldi nýrra smita hefur greinst við landamæri Kína og Rússlands og hefur landamærunum verið lokað.

Faraldurinn hófst í Kína en nú eru yfirvöld þar að reyna að koma í veg fyrir að nýja kórónuveiran berist frá öðrum ríkjum, sem eru mörg hver að berjast gegn umfangsmikilli útbreiðslu veirunnar.

Smituðum hefur fjölgað hratt í Rússlandi að undanförnu.

Sjá einnig: Mögu­lega nauð­syn­legt að fá að­stoð hersins vegna kórónu­veirunnar

Þá hafa Kínverjar heimilað tvær tilraunir á mönnum vegna tveggja bóluefna sem verið er að þróa.

Fjölmargir Kínverjar búa og vinna í Rússlandi og fara yfir landamærin í Heilongjianghéraði og Innri Mongólíu. Landamærin eru mjög löng og erfitt er að fylgjast með þeim.

Ferðir yfir landamærin hafa nú verið bönnuð og hefur almenningi verið heitið verðlaunum fyrir ábendingar um aðila sem brjóti reglurnar og fari yfir landamærin. Fólk fær hærri verðlaun fyrir að góma þá sem brjóta reglurnar sjálft og handsama viðkomandi, samkvæmt frétt Reuters.

Kínverjar opinberuðu í morgun að 89 ný smit hafi greinst á undanförnum sólarhring. Af þeim var í nánast öllum tilfellum um aðila að ræða sem voru að koma frá útlöndum. Enginn dó.

Heilt yfir segjast Kínverjar hafa greint minnst 82.249 smit og 3.341 dauðsföll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×