Fótbolti

Alfreð telur að þýska deildin geti verið fyrirmynd fyrir aðrar deildir Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg hefja leik í þýsku úrvalsdeildinni að nýju í dag.
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg hefja leik í þýsku úrvalsdeildinni að nýju í dag. vísir/getty

Þýska úrvalsdeildin í knattspyrnu fer aftur af stað í dag en hún er fyrsta deild meginlands Evrópu sem hefst að nýju eftir að öllu var frestað vegna kórónufaraldursins.

Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason og samherjar hans í Augsburg mæta Wolfsburg klukkan 13:30 í dag. Í viðtali við íþróttavef Morgunblaðsins segir Alfreð að hann telji að þýska deildin geti verið fyrirmynd fyrir aðrar deildar álfunnar.

Þýska úrvalsdeildin hefur verið í tæpu tveggja mánaðar pásu vegna kórónufaraldursins en enn er óvíst hvenær aðrar deildir Evrópu geta farið af stað. Leikmenn þýsku deildarinnar hafa hins vegar æft í litlum hópum frá því um miðjan mars.

„Það eru all­ir í Þýskalandi mjög spennt­ir fyr­ir því að hefja leik,“ sagði Alfreð í viðtali við Morgunblaðið.

„Ég tel að end­ur­koma deild­ar­inn­ar muni ekki bara hafa góð áhrif á knatt­spyrnu­áhuga­menn í land­inu held­ur líka bara á þýsku þjóðina í heild sinni. Ef allt geng­ur vel hjá okk­ur, þess­ar fyrstu vik­ur, þá er þýska deild­in klár­lega eitt­hvað sem aðrar deild­ir geta horft til og Bundeslig­an get­ur auðveldega verið ákveðin fyr­ir­mynd fyr­ir aðrar deild­ir," sagði framherjinn að lokum.

Augsburg er í fjórtánda sæti deildarinnar með 27 stig. Liðið er ellefu stigum frá fallsæti en aðeins fimm frá sextánda sæti sem þýðir að liðið þyrfti að fara í umspil við lið úr B-deildinni um hvort myndi leika í úrvalsdeildinni að ári.

Alfreð hefur aðeins byrjað átta leiki á þessari leiktíð en hann hefur verið að glíma við þrálát meiðsli og óvíst er með þátttöku hans í leiknum í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×