Innlent

Framlengir bann við komum útlendinga til landsins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er dómsmálaráðherra. vísir/vilhelm

Útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, verður óheimilt að koma til landsins fram til 15. maí, nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda. Dómsmálaráðherra framlengdi ferðatakmarkanir þess efnis, sem tóku gildi 20 mars síðastliðinn, í dag.

Á vef stjórnarráðsins er gefið í skyn að þessi ákvörðun byggi á tilmælum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hún hafi gefið út tilmæli í liðinni viku um að draga áfram úr ferðum fólks innan Schengen-svæðisins til 15. maí, með það fyrir augum að sporna við frekari útbreiðslu kórónu veirunnar. Þær aðgerðir nái aðeins tilgangi sínum ef öll aðildarríki taki þátt og að gildistími takmarkananna sé hinn sami.

„Ríkisborgarar Schengen svæðisins og aðstandendur þeirra munu áfram geta komið óhindrað inn á svæðið og er sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Þá eru ákveðnar starfsstéttir undanþegnar takmörkunum, þ. á m. starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum,“ segir til útskýringar á vef stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar um tilhögun og framkvæmd takmarkananna má finna á heimasíðu Útlendingstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×