Augsburg vann öruggan 3-0 sigur á Schalke 04 á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sigurinn var mikilvægur fyrir Augsburg í botnbaráttunni.
Það var enginn Alfreð Finnbogason í leikmannahóp Augsburg í dag en hann var frá vegna meiðsla. Það kom þó ekki að sök. Eduard Loewen skoraði fyrsta markið, beint úr aukaspyrnu á 6. mínútu og staðan 1-0 í leikhlé.
Noah-Joel Sarenren-Bazee tvöfaldaði forystuna stundarfjórðungi fyrir leikslok og í uppbótartíma var það Sergio Cordova sem innsiglaði sigur Augsburg. Lokatölur 3-0 og fyrsti sigur Augsburg í síðustu fimm leikjum.
Augsburg er eftir sigurinn í 12. sæti deildarinnar og er þar af leiðandi nú sjö stigum frá umspilssæti um fall. Schalke er hins vegar í 8. sætinu með 37 stig.