Innlent

Steypu­bíls­þjófnum var sleppt í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbúnaður lögreglu var mikill þar sem maðurinn ók steypubílnum eftir Sæbrautinni þar sem hann setti sjálfan sig og aðra í mikla hættu.
Viðbúnaður lögreglu var mikill þar sem maðurinn ók steypubílnum eftir Sæbrautinni þar sem hann setti sjálfan sig og aðra í mikla hættu.

Manninum sem tók steypubíl ófrjálsri hendi og ók í miðbænum og á Sæbraut í gærmorgun var sleppt að lokinni yfirheyrslu í gær.

Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi í samtali við Vísi í morgun. Hann segist ekki geta tjáð sig um hvað manninum hafi gengið til.

Mikil hætta skapaðist eftir að bílnum var stolið við nýbyggingu við Vitastig. Var honum ekið Hverfisgötu, Snorrabraut, niður Laugaveg, Bankastræti, um Lækjargötu og eftir Sæbraut, allt þar til að maðurinn stöðvaði bílinn milli Sæbrautar og Köllunarklettsveg. Var hann handtekinn eftir eftirför lögreglu.

„Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins, en ökumaðurinn, karlmaður um þrítugt, virti öll stöðvunarmerki að vettugi og setti bæði sjálfan sig og aðra vegfarendur í mikla hættu með þessu framferði, en hann ók m.a. á öfugum vegarhelmingi á meðan þessu stóð. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð,“ sagði í tilkynningu frá lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×