Erlent

Dökkar sviðsmyndir af Afríku: Hundruð þúsunda gætu dáið

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöld Egyptalands telja sig ekki geta beitt félagsforðun til að draga úr útbreiðslu veirunnar án þess að valda of miklum skaða á hagkerfi landsins. Því hefur verið gripið til þess ráðs að setja á útgöngubann á kvöldin. Þessi mynd var tekin í Kaíró í vikunni, skömmu áður en útgöngubann tók gildi.
Yfirvöld Egyptalands telja sig ekki geta beitt félagsforðun til að draga úr útbreiðslu veirunnar án þess að valda of miklum skaða á hagkerfi landsins. Því hefur verið gripið til þess ráðs að setja á útgöngubann á kvöldin. Þessi mynd var tekin í Kaíró í vikunni, skömmu áður en útgöngubann tók gildi. AP/Nariman El-Mofty

Hundruð þúsunda geta dáið vegna Covid-19 í Afríku á þessu ári. Skásta sviðsmyndin sem sett hefur verið upp af Sameinuðu þjóðunum og byggir á gögnum frá vísindamönnum Imperial College London segir að 300 þúsund muni deyja. Samkvæmt verstu sviðsmyndinni, sem felur í sér engar aðgerðir gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem veldur Covid-19, munu 3,3 milljónir deyja og 1,2 milljarður manna smitast í heimsálfunni.

Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 18 þúsund smit verið staðfest og 942 eru dánir. Sérfræðingar hafa þó varað við því að Afríka sé vikum á eftir Evrópu varðandi dreifingu veirunnar og líkist fjölgun tilfella mjög þróunin eins og hún var í upphafi faraldursins í Evrópu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Samkvæmt skýrslu Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Afríku segi að heilbrigðiskerfi Afríkuríkja muni ekki ráða við besta sviðsmyndina og hvað þá þær verri. Þar segir að ríkin þurfi 44 milljarða dala (um 6,3 billjónir króna) til að takast á við faraldurinn. Versta sviðsmyndin myndi kosta 446 milljarða dala.

Í skýrslunni segir að fátækt, þéttbýli og útbreidd heilbrigðisvandamál geri Afríku sérstaklega viðkvæma gagnvart heimsfaraldri nýju kórónuveirunnar. Ekki eingöngu vegna útbreiðslu veirunnar heldur einnig vegna slæmra afleiðinga á hagkerfi heimsálfunnar.

Sjá einnig: „Púðurtunnan“ Afríka ætti að „búa sig undir það versta“

Michel Yao, umsjónarmaður Afríku hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) segir að aðgerðir yfirvalda í Afríku gætu dregið úr fjölda smita. Hann sagði stofnunina gera ráð fyrir rúmlega tíu milljónum alvarlegra smita í heimsálfunni. Þá spá ætti þó eftir að fínstilla og vildi hann ekki segja blaðamanni AP fréttaveitunnar hvaðan hún væri fengin.

Ætla að gefa verulega í

Embættismenn í Afríku tóku höndum saman fyrr í vikunni og ákváðu að gefa verulega í varðandi skimun fyrir veirunni. Strax í næstu viku stendur til að framkvæma milljón prófa og allt að 15 milljónir á næstu þremur mánuðum.

Afríka hefur þó setið eftir varðandi kaup á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsmenn vegna gífurlegrar eftirspurnar í heiminum. Svipaða sögu er að segja af öndunarvélum og öðrum nauðsynlegum búnaði sem þarf vegna veirunnar. Því hafa ríki heimsálfunnar einnig tekið höndum saman við kaup slíks búnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×