Innlent

Íbúi á Eyri í sóttkví eftir að brotið var gegn heimsóknarbanni

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Ísafjarðarbæ þar sem hjúkrunarheimilið Eyri er að finna.
Frá Ísafjarðarbæ þar sem hjúkrunarheimilið Eyri er að finna. Vísir/Egill

Heimilismaður á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði hefur þurft að fara í sóttkví eftir að brotið var gegn heimsóknarbanni. Þetta kom fram í máli Gylfa Ólafssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á stöðufundi vegna kórónuveirunnar í Bolungarvík í dag.

Gylfi ræddi stöðuna á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og kom þar inn á stöðuna á Ísafirði.

„Það hefur verið leyft að tala við íbúa á Bergi í gegnum glugga. Það er í sjálfu sér saklaust en við viljum benda á að á meðan heimsóknarbannið er þá er það í sjálfu sér ekki tveggja metra reglan sem er í gildi. Það þarf að fara sérstaklega með gát,“ sagði Gylfi.

Forstjórinn benti þá á að oft sé káfað á gluggakörmum og gleri og séu það því miður fletir sem geta fært smit á milli manna.

„Hér á Eyri er fólk í sóttkví núna vegna þess að heimsóknarbann var rofið þegar fólk hélt það væri í lagi að nota tveggja metra regluna og hittast aðeins úti,“ sagði Gylfi.

Gylfi bætti við að hagsmunir heimilisfólks væru settir í algjöran forgang í aðgerðum stofnunarinnar.

Leiðrétting:  Í samtali við fréttastofu eftir að fundinum hafði lokið sagði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, að um væri að ræða einn heimilismann. Lagði hann áherslu á að um væri að ræða óviljaverk byggt á misskilningi á heimsóknarbanninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×