Enski boltinn

Varaformaður West Ham telur sanngjarnt að dæma tímabilið úr sögunni

Ísak Hallmundarson skrifar
Verði tillaga Brady samþykkt, fær Liverpool ekki fyrsta meistaratitil sinn í 30 ár
Verði tillaga Brady samþykkt, fær Liverpool ekki fyrsta meistaratitil sinn í 30 ár vísir/getty
Karren Brady, varaformaður West Ham United, telur sanngjarnt að aflýsa þessu tímabili í ensku deildinni og láta það ekki gilda.

Enska Úrvalsdeildin tilkynnti í gær ákvörðun sína um að fresta öllum leikjum til 4. apríl í fyrsta lagi en nokkur félög eru á móti því að keppni verði haldið áfram þar sem það gæti verið fjárhagslega íþyngjandi.

,,Það er ekki hægt að komast hjá því að hugsa um þann möguleika að öllum deildum innan Englands verði aflýst og þetta tímabil dæmt ógilt ef leikmennirnir geta ekki spilað leikina.

,,Úrvalsdeildin er að vonast eftir því að frestun leikja um þrjár vikur verði til þess að hægt verði að klára mótið, en það gætu verið draumórar, sagði Brady.

,,Þar sem að þetta hefur áhrif á leiki í Úrvalsdeildinni og neðri deildum er eina sanngjarna leiðin að dæma tímabilið ógilt. Hver veit hverjir hefðu komist upp og farið niður um deild ef allir leikirnir væru spilaðir? Auðvitað yrði þetta mikill skellur fyrir Liverpool sem yrðu rændir fyrsta titlinum í 30 ár. Félögin munu ræða þetta við deildina á neyðarfundi í næstu viku, sagði Brady sem hefur greinilega áhyggjur af því hvað verður um liðin í fallsæti ef fleiri leikir verða ekki spilaðir.

Liverpool eru eins og stendur aðeins tveimur sigrum frá fyrsta Úrvalsdeildartitlinum í 30 ár og yrði áfallið mikið ef ekkert verður úr þeim titli. Þetta yrðu einnig gríðarleg vonbrigði fyrir Leeds United ef tímabilið yrði flautað af, en Leeds var á góðri leið með að komast upp í deild þeirra bestu í fyrsta sinn síðan 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×