Knattspyrnustjórum liðanna í ensku úrvalsdeildinni hefur verið tjáð að þeir leikir sem eftir eru af tímabilinu verði aðeins spilaðir á sex vikum.
Vonast er til að hægt verði að klára tímabilið í byrjun ágúst. Alls eiga 92 leikir eftir að fara fram í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20.
Engir leikir hafa farið fram í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins.
Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst í fyrsta lagi helgina 20.-21. júní. Ef það gengur eftir verður leikið um sjö helgar og tvisvar sinnum í miðri viku það sem eftir lifir tímabils.
Ef keppni getur ekki hafist fyrr en helgina 27.-28. júní verður leikið um sex helgar og þrisvar sinnum í miðri viku.
Vonir standa til að hægt verði að ljúka tímabilinu sunnudaginn 2. ágúst. Stefnt er að því að hafa úrslitaleik ensku bikarkeppninnar helgina þar á eftir.