Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant, var ein af mörgum sem hefur tjáð sig um George Floyd sem dó eftir harkalega og ómanneskjulega handtöku lögreglumanna í Minneapolis.
Vanessa Bryant rifjaði upp viðbrögð Kobe Bryant heitins við svipuðu máli fyrir sex árum síðan.
Blökkumaðurinn Eric Garner dó þá á götum Staten eyju í New York borg eftir að hvítur lögreglumaður tók hann hálstaki.
Eins og var í tilfelli George Floyd þá kallaði Eric Garner margoft „I can't breathe“ áður en hann lést eða „Ég get ekki andað“ á íslensku.
Margir leikmenn í NBA-deildinni brugust við því hörmulega máli með því að hita upp í „I can't breathe“ treyjum fyrir næsta leik sinn í NBA-deildinni. Það voru leikmenn allt frá LeBron James til Derrick Rose til Carlos Boozer.
Kobe Bryant var líka í slíkri upphitunartreyju og ekkja hans Vanessa Bryant birti mynd af honum í treyjunni á Instagram síðu sinni.
„Lífið er svo viðkvæmt og lífið er svo ófyrirsjáanlegt. Lífið er of stutt,“ byrjaði Vanessa Bryant stuttan pistil sinn á Instagram.
Kobe Bryant og þrettán ára dóttir hans og Vanessu, Gianna, létust ásamt sjö öðrum í þyrsluslysi 26. janúar síðastliðinn þegar þau voru á leiðinni í körfuboltaleik hjá liði Giannu Bryant.
„Við skulum öll deila og fagna því hversu líka og hversu ólík við mannfólkið erum. Hrekjum hatrið í burtu. Kennum virðingu og ást fyrir alla, bæði heima og í skólanum. Dreifum ástinni út um allt,“ skrifaði Vanessa Bryant eins og sjá má hér fyrir neðan.