Eftir þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins hefst keppni á PGA-mótaröðinni í golfi aftur á fimmtudaginn.
Þá hefst Charles Schwab Challenge mótið í Forth Worth, Texas. Mótið átti að fara fram í lok maí en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Vegna hans verða engir áhorfendur á mótinu.
Ekki hefur verið keppt síðan keppni á Players Championship var hætt eftir einn dag um miðjan mars.
Fimm efstu menn heimslistans í golfi verða með á Charles Schwab Challenge. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1986 sem það gerist.
Rory McIlroy, efsti maður heimslistans, keppir á Charles Schwab Challenge í fyrsta sinn á ferli sínum á PGA-mótaröðinni. Sömu sögu er að segja af Justin Thomas sem er í 4. sæti heimslistans. Tiger Woods verður ekki á meðal keppenda að þessu sinni.
Sautján af 20 efstu mönnum á stigalista PGA-mótaraðarinnar verða með á Charles Schwab Challenge, þ.á.m. Bandaríkjamaðurinn Kevin Na sem vann mótið í fyrra. Hann lék þá á þrettán höggum undir pari og var fjórum höggum á undan landa sínum, Tony Finau.
Im Sung-jae, 22 ára Suður-Kóreumaður, er efstur á stigalista PGA-mótaraðarinnar. Thomas er í 2. sæti og McIlroy í því þriðja.
Sýnt verður frá öllum fjórum keppnisdögunum á Stöð 2 Golf. Bein útsending frá fyrsta keppnisdegi hefst klukkan 20:00 á fimmtudaginn.