Innlent

Fá 43,8 milljónir til rafvæðingar Akureyrarhafnar

Andri Eysteinsson skrifar
Frá undirritun samningsins í morgun.
Frá undirritun samningsins í morgun. Stjórnarráðið

Ríkisstjórnin mun veita Akureyrarhöfn styrk að upphæð 43,8 milljónir króna til þess að stuðla að rafvæðingu hafnarinnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði samning þess efnis ásamt Pétri Ólafssyni hafnarstjóra á Akureyri í morgun. Viðstödd undirritunina var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Fjármunirnir munu fara í verkefni sem snúa að því að setja upp háspennutengingu fyrir flutninga-, fiski- og minni skemmtiferðaskip við Tangabryggju en undirbúning framkvæmda er þegar hafinn.

Ætlunin er að rafvæðing hafnarinnar dragi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í Akureyrarhöfn. Um leið sé dregið úr hljóðmengun frá skipsvélum og rafstöðvum um borð.

„Við verðum að vinna að breytingum á öllum sviðum samfélagsins til þess að Ísland geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og lagt sitt af mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum. Orkuskipti í höfnum eru stór og mikilvæg skref í þá átt,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í samstarfi við ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar úthlutað styrkjum til rafvæðingar hafna á níu öðrum stöðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og er verkefnið hluti að átaki ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×