Íslenski boltinn

Bálreiður Rúnar: Sorgmæddur fyrir hönd Gunnars sem sleit krossbönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar hefur fengið nóg af gervigrasinu inn í Egilshöll.
Rúnar hefur fengið nóg af gervigrasinu inn í Egilshöll. Mynd/Vísir

Rúnar Kristinsson var ómyrkur í máli eftir 8-1 sigur KR á Vængjum Júpíters í Mjólkurbikarnum en Gunnar Þór Gunnarsson meiddist illa í leiknum og hefur líklega leikið sinn síðasta leik á ferlinum.

„Glaður að við skyldum hafa unnið leikinn en ég er sorgmæddur fyrir hönd Gunnars Þórs sem virðist hafa spilað sinn síðasta leik á ferlinum. Það er kannski þessu gervigrasi að þakka sem við erum búnir að vera blóta í sand og ösku lengi. Algjörlega óþolandi að spila hérna inni,“ sagði Rúnar sem var augljóslega mikið niðri fyrir þó svo að leikurinn hafi unnist 8-1.

KR missir þarna góðan liðsmann en Gunnar Þór hefur verið hluti af KR liðinu til fjölda ára.

„Ekkert sem ég er fúll yfir varðandi Vængi Júpíters. Þeir vildu spila á KR-vellinum og við vildum það. Samkvæmt einhverjum reglum KSÍ má það ekki. Ég er bara drullufúll,“ sagði Rúnar enn fremur.

„Bæði lið óskuðu eftir því að spila á KR-vellinum en fengu neitun. Samkvæmt einhverjum reglum er það bannað. Við erum að reyna færa íslenska knattspyrnu á hærri stall og þetta er ekki boðlegt í 32-liða úrslitum að vera inn í höll að spila fótbolta þar sem þú getur ekki bleytt grasið. Þetta er bara slysahætta,“ sagði Rúnar aðspurður hvort bæði lið hefðu óskað eftir því að færa leikinn.

„Gunnar Þór, sem hefur verið frábær fyrir KR í mörg ár, er að enda ferilinn sinn hér í stað þess að taka þátt í öllu sumrinu með okkur ef við hefðum spilað við almennilegar aðstæður. Við höfum verið ósáttir með þetta síðan í vetur í Reykjavíkurmótinu og erum það enn, það þarf að gera eitthvað í þessu,“ sagði Rúnar áður en hann ræddi leikinn aðeins nánar að lokum.

Viðtalið við Rúnar í heild sinni má sjá hér að neðan en Ingvar Örn Ákason sá um spurningarnar að þessu sinni.

Klippa: Bálreiður Rúnar vegna meiðsla Gunnars Þórs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×