Þrír eru látnir og tveir eru á gjörgæslu eftir að eldur kviknaði í íbúðarhúsi í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. Einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur verið kölluð til vegna málsins.
Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru tveir handteknir á vettvangi fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögregluþjóna en sleppt eftir skýrslutökur. Einn er í haldi í þágu rannsóknarinnar og mun liggja fyrir í dag hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum.
Tilkynning um eldsvoðann barst á klukkan 15:15 í gær. Húsið, sem er á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs, varð hratt alelda og voru aðstæður mjög erfiðar slökkviliðsmönnum. Þá lagði mikinn reyk frá húsinu. Allt tiltekt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var sent á vettvang.
Í tilkynningunni segir að ekki verði frekari upplýsingar veittar að svo stöddu.
Fréttablaðið sagði frá því í morgun að samkvæmt Þjóðskrá séu 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu. Langstærstur hluti þeirra séu með erlent vegabréf en íslenska kennitölu.