Eftir átök milli hersveita á landamærum Kína og Indlands hefur indverska ríkisstjórnin gripið til þess ráðs að banna yfir fimmtíu kínversk smáforrit í landinu þar sem að þau gætu stofnað öryggi og fullveldi Indlands í hættu.
Á meðal forritanna er samfélagsmiðillinn vinsæli TikTok en forritið er það forrit sem oftast hefur verið sótt í Indlandi og yfir 200 milljónir Indverja notendur TikTok og þó nokkrir sem notið hafa mikilla vinsælda á forritinu. Guardian greinir frá.
Ekki er sérstaklega tekið fram að bannið nái til kínverskra smáforrita þó að öll forritin á bannlistanum séu frá Kína. Nýlega létust 20 indverskir hermenn eftir átök við Kínverja við umdeild landamæri ríkjanna í Himalaja-fjöllum. Þá hafa þjóðirnar eldað grátt silfur saman síðan en Indverjar saka Kínverja um að ógna fullveldi Indlands með því að færa herlið nær landamærunum.
Indverska ríkisstjórnin sagði í yfirlýsingu sinni að ástæða þess að forritin yrðu bönnuð væri sú að verja skyldi friðhelgi Indverja á netinu og gögn þeirra sem hægt yrði að stela og færa í hendur aðila utan landsteinanna.
Þá hafa stjórnvöld hækkað tolla og gjöld á fjölda kínverskra vara og samtök hótel- og veitingahúseigenda í Delhi hafa ákveðið að banna alla kínverska ríkisborgara vegna deilna ríkjanna.