Fótbolti

De Bruyne og Sterling bættu eigin met

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir hafa átt ágætis tímabil.
Þessir hafa átt ágætis tímabil. EPA/GERRY PENNY

Manchester City mætti Watford í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Til að gera langa sögu stutta þá vann City öruggan 4-0 sigur og Watford eru enn í bullandi fallbaráttu.

Sterling skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og var tekin af velli áður en hann náði að fullkomna þrennu sína þó svo að hann hafi fengið tækifæri til þess. Með mörkunum er Sterling kominn upp í 19 mörk í deildinni á leiktíðinni.

Hinn 25 ára gamli Sterling hefur aldrei skorað jafn mörg mörk á einu og sama tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Á síðustu leiktíð skoraði kantmaðurinn öflugi 17 mörk í deildinni og þar áður náði hann að koma knettinum 18 sinnum í net andstæðinganna.

Hann er nú kominn upp í 19 mörk og gæti vel farið yfir 20 marka  múrinn þar sem Manchester City mætir nú þegar föllnu liði Norwich City í síðustu umferð deildarinnar um næstu helgi.

Sterling var ekki eini maðurinn sem sló persónulegt met í leiknum en Kevin De Bruyne lagði upp sitt nítjánda mark á tímabilinu þegar hann átti aukaspyrnu fyrir mark Watford á 66. mínútu. Þar mætti Aymeric Laporte og stangaði knöttinn í netið.

De Bruyne lagði upp 18 mörk tímabilið 2016 til 2017 og ári síðar lagði hann upp 16 mörk. Hann var mikið frá vegna meiðsla á síðustu leiktíð en hefur heldur betur bætt upp fyrir það í vetur - og sumar.

Manchester City mun enda í 2. sæti deildarinnar og þó það séu vonbrigði þá er liðið marka-hæsta lið Evrópu með 97 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Þeir þurfa því þrjú mörk gegn Norwich til að ná 100 mörkum í deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×