Enski boltinn

Dýrasti markvörður heims á útleið | Hver tekur stöðu hans?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kepa á bekknum gegn Wolves í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á dögunum.
Kepa á bekknum gegn Wolves í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á dögunum. Craig Mercer/Getty Images

Talið er að Frank Lampard ætli sér að stokka upp í leikmannahópi sínum fyrir næstu leiktíð. Fyrsti maðurinn sem virðist vera á förum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea er spænski markvörðurinn Kepa Arrizabalaga en hann er dýrasti markvörður í heimi. Spánverjinn hefur hins vegar lítið heillað þau tvö ár sem hann hefur spilað í Englandi.

Kepa var hvorki í marki Chelsea í undanúrslitum FA-bikarsins né í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Ef Willy Caballero stendur milli stanganna er Chelsea mætir Arsenal í úrslitum FA-bikarsins klukkan 16:30 í dag – í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport – er ljóst að Spánverjinn á enga framtíð fyrir sér á Brúnni.

Caballero verður samningslaus nú þegar leiktíðinni lýkur og Lampard því að senda skýr skilaboð ef Kepa hefur leik á varamannabekknum.

Talið er að Lampard hafi augastað á landa sínum Dean Henderson hjá Manchester United, sem hefur þó verið á láni hjá Sheffield United undanfarin tvö ár. David Preece – fyrrum markvörður Keflavíkur og núverandi markmannsþjálfari Östersund – telur að aðrir ódýrari kostir séu einnig í stöðunni.

Hann nefnir þar André Onana, markvörð Ajax í Hollandi. Honum líður vel með boltann við fætur sér og tekur mikinn þátt í uppspili. Einnig er hann góður að hreinsa upp fyrir aftan vörnina sem er eitthvað sem Lampard gæti viljað.

Talið er að Onana gæti kostað 30 milljónir punda en Chelsea pungaði út 72 milljónum punda í Kepa fyrir aðeins tveimur árum síðan. Svo ef Kepa byrjar gegn Arsenal og á stórleik þá eru mögulega allar þessar vangaveltur óþarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×