Enski boltinn

Torres til Manchester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
EemPfqRWAAIscFw.jfif

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City staðfesti í kvöld kaup félagsins á hinum tvítuga Ferran Torres. 

Torres kemur frá Valencia á Spáni þar sem hann hefur leikið einkar vel á þessari leiktíð. Spánverjinn kostar City litlar 23 milljónir punda eða rúma fjóra milljarða króna. Skrifar hann undir fimm ára samning við City-liðið.

Torres skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur fimm í spænsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili þar sem Valencia endaði í 9. sæti. Þar lék hann oftast í stöðu hægri vængmanns.

Torres er fyrsti leikmaðurinn sem City fær til sín í sumar en reikna má með að Pep Guardiola muni bæði selja og kaupa nokkra leikmenn í sumar.

City endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 18 stigum á eftir Liverpool sem vann deildina með yfirburðum. City á þó enn möguleika á að landa stórum titli en liðið er í fínni stöðu fyrir síðari leik sinn gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu eftir 2-1 sigur á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×